Innlent

Frekar lyf fyrir langveika en listamannalaun

Jakob Bjarnar skrifar
Gústaf Gústafsson er ekki í miklum metum meðal listamanna nú um stundir.
Gústaf Gústafsson er ekki í miklum metum meðal listamanna nú um stundir.
„Málið er frekar einfalt í mínum huga, ef listamaður getur ekki eða vill ekki skapa list án greiðslu frá hinu opinbera þá finnst mér að hann ætti að fá sér annað starf, því ríkiskassinn leyfir okkur ekki að halda uppi hópi einstaklinga sem geta unnið fyrir sér, án opinberrar íhlutunar að mínu viti,“ skrifar Gústaf Gústafsson í grein á vef Bæjarins besta, bb.is. Tilefnið er viðtal við Eirík Örn Norðdahl rithöfund á sama stað þar sem hann tjáir sig um listamannalaunin umdeildu sem verið hafa mjög í deiglunni eftir að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, ítrekaði stefnu Framsóknarflokksins fyrir nokkru þess efnis að breyta beri fyrirkomulagi listamannalauna.

„En listamannalaunum myndi ég skipta út fyrir að borga heilbrigðisstarfsfólki mannsæmandi laun, ég myndi skipta á þeim og betri lyfjum fyrir langveika, betri aðstöðu fyrir börn og aðstandendur sem eru að berjast í erfiðum og sársaukafullum veikindum. Ég myndi skipta á listamannalaunum og endurgjaldslausri tannhirðu barna. Ég myndi skipta á listamannalaunum og betri almenningssamgöngum. Þetta er mín skoðun,“ skrifar Gústaf í grein sinni.

Gústaf fær fremur bágt fyrir í athugasemdakerfinu þar sem meðal annarra drepur niður penna Andri Snær Magnason sem er á öndverðri skoðun: „Á Íslandi eru 16 rithöfundar á fullum lágmarkslaunum í senn. Til samanburðar eru 16.000 öryrkjar á Íslandi. Starfslaun rithöfunda eru 200 milljónir á ári. Til samanburðar er tap íbúðalánasjóðs 270 milljarðar, eða eins og listamannalaun í 1300 ár, til ársins 3313. Styrkir til sauðfjárræktar eru um 3.1 milljarður. Það mætti skipta á stuðningi við bókmenntir fyrir 2000 kindur. Óþarfur vegur gegnum Gálgahraun er um 1.5 milljarðar. Hér virðist Gústaf haldinn miklum ranghugmyndum um stærðir í samfélagi okkar. Heiðurslaun listamanna renna til okkar ástsælustu gamalmenna sem fá skertan ellilífeyri á móti.“ Andri Snær heldur seinna áfram með samanburð: „Varðandi áhyggjur af tannskemmdum, ef tannlæknar sættu sig við ígildi listamannalauna í mánaðarlaun væri hægt að fínpússa allar barnatennur á landinu. En ég held að þeir þurfi allavega tvöföld, eða þreföld, áður en þeir hefjast handa. Þar stendur hnífurinn.“

Meðal þeirra sem tjá sig á athugasemdakerfinu, og gefa lítið fyrir skrif Gústafs, eru áðurnefndur Eiríkur Örn, Svavar Knútur tónlistarmaður og Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur. 

...

Uppfært 5. júlí kl: 09:45

Yfirlýsing frá aðstoðarmanni forsætisráðherra

Vísi hefur borist athugasemd vegna þessarar fréttar frá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem eðlilegt er að koma á framfæri á þessum vettvangi:

"Í fréttinni segir m.a.:

"listamannalaunin umdeildu sem verið hafa mjög í deiglunni eftir að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, ítrekaði stefnu Framsóknarflokksins fyrir nokkru þess efnis að breyta beri fyrirkomulagi listamannalauna."

Vegna þessa vil ég koma eftirfarandi á framfæri við ritstjórn Vísis, til að ekki fari milli mála við vinnslu frétta í framtíðinni:

Orðið "listamannalaun" er oftast nær notað um starfslaun listamanna, ekki heiðurslaun listamanna.

Í stefnu Framsóknarflokksins stendur hvergi stafkrókur um að gera eigi breytingar á fyrirkomulagi listamannalauna, þ.e. starfslauna listamanna.

Vigdís Hauksdóttir notaði orðið "listamannalaun" hins vegar í svari á Beini línu DV á dögunum þar sem hún átti við heiðurslaun listamanna.

Þessi tiltekna orðnotkun hefur í kjölfarið valdið nokkuð víðtækum misskilningi um stefnu Framsóknarflokksins gagnvart listamannalaunum.

Eftirfarandi er rétt:

Í stefnu Framsóknarflokksins segir um heiðurslaun listamanna:

"Framsóknarflokkurinn lítur svo á að heiðurslaun listamanna séu ekki besta leiðin til að stuðla að grósku í íslensk listalífi. Framsóknarflokkurinn leggur til að heiðurslaun listamanna verði lögð niður í núverandi mynd og að það fjármagn sem sparast verði notað í sérstök starfslaun fyrir unga listamenn."

(Sjá: https://www.framsokn.is/wp-content/uploads/2013/04/alyktanir-flokksthings-framsoknarmanna-2013.pdf)

Hvergi í stefnunni er talað um starfslaun listamanna, né neins konar breytingar á þeim.

Það er því ekki rétt í fréttinni að Vigdís hafi "ítrekað stefnu Framsóknarflokksins... þess efnis að breyta beri fyrirkomulagi listamannalauna", þar sem slíkt er hvergi að finna í stefnu flokksins.

Ég veit að þetta hljómar svolítið eins og sparðatíningur, en staðreyndin er sú að listamenn, og samtök þeirra sérstaklega, gera skýran greinarmun á þessari orðnotkun. Fyrir þeim sem við á, er orðið listamannalaun notað um starfslaun listamanna, eins og sést á því hversu mjög listamönnum brá í brún við ummæli Vigdísar og umfjöllun um þau þar sem sífellt var talað um að stefna Framsóknar væri að breyta fyrirkomulagi listamannalauna. Þar töldu þessir aðilar skýrlega að átt væri við starfslaunin.

Þessi aðgreining, og að rétt sé farið með hvað er í stefnu flokksins og hvað ekki, skiptir því töluverðu máli fyrir umræðuna.

Mig langar því að fara fram á að setningin sem ég vitna til í upphafi póstsins verði lagfærð í þá átt að hún styðji ekki þá rangtúlkun að stefna Framsóknarflokksins sé að gera breytingar á starfslaunum listamanna, listamannalaunum.

Kær kveðja,

Jóhannes Þór Skúlason

aðstoðarmaður forsætisráðherra"

(Athugasemd blaðamanns. Í fréttinni er vísað óbeint til orða Vigdísar Hauksdóttur. Er þar ekki farið rangt með, en blaðamaður getur ekki verið ábyrgur fyrir því hvort orð Vigdísar eru þannig fram sett að þau valdi misskilningi -- eða ekki. Að Jóhannes árétti hver stefna Framsóknarflokksins er hvað varðar listamannalaun er vel þegið og sjálfsagt að koma þeim orðum á framfæri.)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×