Innlent

Birgitta segir Ban Ki-moon ömurlegan

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ágreiningur er um hvað raunverulega var sagt á fundi utanríkismálanefndar um Edward Snowden í opinberri heimsókn Ban Ki-moons, aðalframkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
Ágreiningur er um hvað raunverulega var sagt á fundi utanríkismálanefndar um Edward Snowden í opinberri heimsókn Ban Ki-moons, aðalframkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna.
Tvennum sögum fer af fullyrðingum Ban Ki-moons, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um mál uppljóstrarans Snowdens, á fundi sem hann átti með utanríkismálanefnd í opinberri heimsókn sinni til landsins. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata hefur gagnrýnt Ban Ki-moon opinberlega fyrir það sem hann sagði á fundinum. Hefur það meðal annars komið fram í breska fréttamiðlinum The Guardian. Aðrir fundarmenn segja Birgittu fara með rangt mál.



Snerist ekki um Snowden

Silja Dögg Gunnarsdóttir,  fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni,  segist sammála því sem Ban Ki-moon sagði á fundinum. „Ban Ki-moon var mjög almennur í máli sínu. Hann sagði að við yrðum að umgangast nýja upplýsingatækni með varúð. Hann sagði að þetta væri mat hverju sinni, það væri ekkert endilega alltaf betra að deila öllum upplýsingum þó að maður hefði þær. Það verður að hugsa um hvort það þjóni hagsmunum heildarinnar og að stundum sé þetta spurning um þjóðaröryggi.“ Hún segir jafnframt að Ban Ki-moon hafi ítrekað að þetta væri hans eigin persónulega skoðun. „Mér fannst þetta ekki hljóma neitt pólitískt, enda snýst þetta ekkert endilega um Snowden sem hann var að segja.“ 

Augljóst að Ban Ki-moon átti við Snowden

Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, segir að spurningu Birgittu hafi snúið að Snowden en að hans minni reki ekki til þess að Ban Ki-moon hafi nefnt hann á nafn. Þó hafi það verið alveg ljóst að hann var að tala um mál uppljóstrarans. „Hann sagði Sameinuðu þjóðirnar að sjálfsögðu standa vörð um mannréttindi og persónuvernd en að hins vegar væri það áhyggjuefni ef að upplýsingar væru misnotaðar.“

Edward Snowden setti heimsbyggðina í uppnám með uppljóstrunum sínum um bandarískar persónunjósnir.
„Ég nefndi aldrei Snowden.“

Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi á fundinum, hefur aðra sögu að segja af fullyrðingum Ban Ki-moons. „Ég var svo hissa vegna þess að hann nafngreindi Snowden að fyrra bragði. Mín ætlun, þegar ég kom á fundinn, var engan veginn að skammast út í einn né neinn,“ segir Birgitta. „ Ég var að spyrja um hvort að Sameinuðu þjóðirnar gætu ekki verndað friðhelgi einkalífs í tengslum við netið. Ég hef verið að vinna að því lengi að fá þessu orði, „online“, bætt við 12. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, en hún kveður á um friðhelgi einkalífs, og sneri spurning mín að því. En í staðinn fyrir að gagnrýna stjórnvöld fyrir að grafa svo djúpt í einkalíf fólks og segja að það væri með öllu ólíðandi að ríkisstjórnir viðhafi svo víðtæk mannréttindabrot segir hann að vandamálið séu uppljóstrararnir. Hann er ömurlegur. Þetta er sorglegt á svona krítískum tímum.“

Ban Ki-moon er lélegur aðalframkvæmdastjóri miðað við Kofi Annan að mati Birgittu og hún segir hann ekki hafa farið fögrum orðum um forvera sinn í embættinu á fundinum.

Hún gagnrýnir Sameinuðu þjóðirnar í heild harðlega. „Þeir eru góðir í "krísukontról" eins og til dæmis með flóttamennina frá Sýrlandi, en ekki þegar kemur að því að taka á málunum af einhverri alvöru.“ Minnist hún á Tíbet í því sambandi og segir ekkert hafa verið gert fyrir þá þjóð sem er ekki einu sinni með her.   

„Fólk man mjög misjafnt eftir svona fundum,“ segir hún aðspurð af hverju svo ólíkum sögum fari af fundinum. „Ég talaði við nokkra eftir fundinn sem að staðfestu það ég færi með rétt mál, að ég væri ekki bara að búa eitthvað til. Ég nefndi aldrei Snowden.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×