Innlent

Telur að forsetinn staðfesti veiðigjöldin

Jón Þór, Helgi Hrafn og Birgitta á Bessastöðum í dag.
Jón Þór, Helgi Hrafn og Birgitta á Bessastöðum í dag. Mynd/stöð 2
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata telur ólíklegt að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands synji lögum um veiðigjöld staðfestingar, eins og 35 þúsund manns hafa skorað á hann að gera með undirskriftum og kannanir sýna að 70 prósent landsmanna er sama sinnis.

Þingmenn Pírata áttu fund með forsetanum í hádeginu og segir Birgitta aðalerindið hafa verið að ræða við forsetann um lýðræðismál, beint lýðræði og lýðræðisþróun.

„Að sjálfsögðu bar veiðigjaldið á góma. Hann var með svona, eins og honum er lagið, ákaflega góð rök í þá veru að honum þætti erfitt að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Birgitta segist þó ekki ætla að falla í þann pitt að túlka orð forsetans eins og margir gerðu. Ákvörðun hans komi í ljós. En hún játi að það yrðu henni vonbrigði ef forsetinn staðfesti lögin enda hefðu allir þingmenn Pírata skrifað undir áskorunina.

Á fundinum hafi henni þótt röksemdarfærsla forsetans hnýga meira í þá átt að hann myndi staðfesta lögin.

„En maður veit svo sem aldrei hvernig ákvarðanir þróast hjá forsetanum. Hann hefur nú náttúrulega mjög sjálstæðan vilja sem er í sjálfu sér gott. En ég ætla bara að leyfa honum að útskýra þetta fyrir þjóðinni,“ segir Birgitta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×