Innlent

Minntust dauðalestarinnar í Hvalfirði

Í Hernámssetrinu í Hvalfirði var boðið til móttöku í dag í tilefni 71 árs brottfararafmælis PQ-17 skipalestarinnar.

Það var í júnílok árið 1942 sem fjölmenn skipalestin lagði upp með stefnu á Arkangelsk við Hvítahafið með bandarísk vopn um borð fyrir 700 miljónir dollara, send til þess að vígbúa 50 þúsund rússneska hermenn, í baráttunni gegn nasismanum.

Af þeim 33 skipum sem lögðu af stað frá Hvalfirðinum átti aðeins þriðjungurinn afturkvæmt til hafnar. Því þann 4. júlí voru 22 skipanna skotin niður af þýskum kafbátum og flugvélum og með þeim fórust 153 menn og sukku til botns í Norðuríshafinu.

Aðeins níu skip skiluðu sér til hafnar. PQ-17 lestin hlaut því nafnið dauðalestin.

Af tilnefninu afhenti Rússneska sendiráðið á íslandi hernámssafninu einkennisbúninga úr seinni heimstyrjöldinni ásamt eftirlíkingum af skotvopnum þess tíma. Safnið fagnar einnig árs afmæli sínu um þessar mundir.  Andrey Tsyganov, sendiherra Rússlands sagði gjöfina fyrst og fremst þakkarvott til safnsins fyrir að varðveita mikilvæga sögu.

Eigandi Safnsins Guðjón Sigmundsson var að vonum ánægður með gjöfina.

,,Þetta hefur alveg gífurlega þýðingu fyrir safnið og lyftir þessari starfsemi upp á annað plan finnst mér," sagði Guðjón.



Skálað var í vodka og víni og svo fluttu sveitungar tónlistaratriði, íslensk og rússnesk, við mikinn fögnuð nærstaddra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×