Innlent

Griðasvæðið fært í fyrra horf

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Sjávarútvegsráðherra felldi úr gildi í dag ákvörðun forvera síns um að stækka griðasvæði hvala í Faxaflóa. Formaður Hvalaskoðunar-samtaka Íslands er mjög ósáttur við ákvörðunina og segir hrefnuna gæfari eftir að hvalveiðar voru bannaðar á stærra svæði.

Þann 21. maí síðastliðinn stækkaði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi sjávarútvegsráðherra bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa.

Fyrir þann tíma náði það frá Garðskaga og norður fyrir Akranes en með ákvörðun Steingríms var bannað að veiða hvali innan línu sem náði frá Garðskaga til Skógarness á Snæfellsnesi. Í dag afturkallaði núverandi sjávarútvegsráðherra þá stækkun og færði bannsvæðið til fyrra horfs.

„Það er ekkert sem bendir til þess að hrefnustofninn sé að minnka. Það er mikilvægt að við byggjum áfram á þekkingu og hvalarannsóknum til þess að vita nákvæmlega hvað við erum með í höndunum. Á grunni þess hef ég ákveðið að færa línuna aftur til þeirrar línu sem var fyrir ákvörðun forvera míns í embætti," segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.

Sigurður Ingi segir að fyrri ákvörðun hafi ekki verið tekin á málefnalegum forsendum. Hún hafi ekki verið í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar og hvorki hafi verið horft til vísindalegra sjónarmiða né hagsmuna hrefnuveiða á svæðinu.

Nær 80% allra þeirra hrefna sem hafa verið veiddar í Faxaflóa undanfarin ár hafa komið af því svæði sem bannað hefur verið að veiða á síðan í maí. Því hefur verið verulega vegið að veiðunum segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Hvalaskoðunarfyrirtæki höfðu lengi þrýst á að griðasvæði hvala yrði stækkað og fögnuðu stækkunni í maí þó hún hafi ekki verið eins mikil og þeir vildu.

„Við erum mjög svekkt. Við áttum fund með sjávarútvegsráðherra fyrir nokkrum vikum og skýrðum út fyrir honum afhverju það væri mikilvæg að halda þessu eins og þetta var sett í vor. Hann hefur greinilega ekki tekið okkar rök til umhugsunar," segir Rannveig Grétarsdóttir formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.

Rannveig segir griðasvæðið skipta gríðarlega miklu máli fyrir ferðaþjónustuna, síðustu vikur hafi hvalaskoðunin gengið mjög vel og að hrefnurnar séu gæfari en áður.

„Ef það eru jafn margar hrefnur í kringum landið og Hafró telur hljóta veiðarnar að geta verið einhversstaðar annars staðar. Þeir hafa verið að veiða fyrir norðan núna og sunnan megin við Garðskagann og ég get ekki séð afhverju  þeir geti ekki haldið því áfram."

„Ég tel að það sé gott tækifærir fyrir báðar þessar atvinnugreinar að vaxa og það sé líka nauðsynlegt að hafa gott samráð á milli þeirra og ég mun beita mér fyrir því." segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×