Innlent

"Margir illa útbúnir bílar á ferðinni"

Boði Logason skrifar
Miklir vatnavextir eru í ám á Suðurlandi
Miklir vatnavextir eru í ám á Suðurlandi Mynd úr safni
Rúta með fjórtán ferðalanga innanborðs festist í Hellisá á Lakaleið á hádegi í dag. Vatn flæddi inn í rútuna og náði vatnið fólkinu upp að mitti þar sem þar var dýpst.

Björgunarsveitin Kyndill var kominn á staðinn upp úr klukkan eitt í dag og kom rútunni á þurrt. Ekkert amar að ferðalöngunum, en þau voru þó blaut.

Viðar Björgvinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Kyndils, segir að björgunaraðgerðir hafi gengið vel.

„Þetta gekk mjög vel, þetta var bíll sem var ekki ætlað að fara í mjög djúpt vatn þannig við fórum bara á jeppunum okkar út í ,og drógum rútuna í land. En fólkið var orðið blautt, við settum það í bílana hjá okkur og keyrðum það fram. Núna erum við að reyna að koma rútunni til byggða."

Var fólkið skelkað?

„Nei það var frekar rólegt, því það voru aðrir bílar komnir þarna að þarna. Það er ekki það mikill straumur í ánni, það var svo sem engin hætta á ferðinni. Þetta sýnir okkur það að það eru margir illa útbúnir bílar á ferðinni, jafnft útlendingar sem Íslendingar."

Fólkið verður flutt á bílum björgunarsveitarinnar á Kirkjubæjarklaustur þar sem ferðaskrifstofa þeirra mun taka við þeim.

„Á leið okkar heim þá keyrðum við framhá á sem heitir Geirlandsá, og þar var einn búinn að drekkja sér. Þannig ég á von á því að við kippum honum upp úr á leiðinni heim. Það eru miklir vatnavextir í öllum ám á Suðurlandi og fólk þarf að varast það að vera þvælast hér um hálendið á Suðurlandi,“ segir Viðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×