Innlent

Bandaríkin hafa sent yfirvöldum í Venúsúela framsalsbeiðni vegna Snowden

Hjörtur Hjartarson skrifar
Bandaríska uppljóstraranum, Edward Snowden hefur verið boðið pólitískt hæli í Venúsuela og Níkaragúa. Ljóst þykir þó að það verður enginn hægðarleikur fyrir hann að komast til Suður-Ameríku þar sem líklegt þykir að fjölmörg Evrópulönd muni ekki hleypa flugvél Snowden um lofthelgi landanna.

Snowden hefur nú í 14 daga dvalið í flugstöð í Moskvu þar sem umsóknum hans víða um heim um pólitískt hæli hefur ýmist verið hafnað eða ekki svarað. Á fimmtudaginn ákvað alþingi að hafna tillögu minnihlutans um að láta þingnefnd ræða um hvort veita ætti Snowden íslenskan ríkisborgararétt.

En nú virðist sem einhverskonar lausn sé í sjónmáli fyrir Snowden. Forseti Níkaragúa, Daniel Ortega sagði í gær að honum yrði tekið opnum örmum ef aðstæður til slíks væru heppilegar. Nicolas Maduro, forseti Venúsúela gekk jafnvel lengra í ræðu sinni á þjóðhátíðardegi landsins þar sem hann sagði það skyldu þjóðar sinnar að veita Snowden hæli og skjól fyrir ofsóknum yfirvalda í Bandaríkjunum. Og almenningur í Venúsúela virðist honum sammála.







Það gæti þó reynst Snowden erfitt að komast til Venúsúela. Engin bein flug eru á milli Moskvu og Caracas og því þyrfti hann að millilenda ef hann ferðast ekki með einkaþotu. Það gæti líka reynst honum þrautin þyngri þar sem fjölmargar þjóðir í Evrópu munu líklega ekki leyfa vélinni að fljúga um lofthelgi landanna. Aukinheldur greindi breska blaðið The Guardian frá því nú síðdegis að bandaríkjamenn hafi nú þegar sent yfirvöldum í Venúsuela beiðni um að hann verði handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna komi hann til landsins. Það stefnir því í að Snowden verði enn um sinn fastur í flugstöð í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×