Innlent

Vill átak í grasslætti

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Ásýnd Reykjavíkurborgar líður fyrir það hversu sjaldan græn svæði eru slegin að mati sjálfstæðismanns í borginni.  Borgarstarfsmaður segir mikla vætutíð og grassprettu í sumar hafa haft áhrif á sláttinn.

Marta Guðjónsdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þess efnis að gert verði átak í grasslætti og almennri umhirðu á opnum grænum svæðum í borginni. Í tillögunni segir að þriðja árið í röð sé grassláttur langt frá því að vera viðunandi og að ásýnd borgarinnar líði verulega fyrir það.

„Ég vil sjá að það sé slegið oftar og það sé byrjað fyrr, vegna þess að það hefur verið byrjað alltof seint og slegið sjaldnar en var gert áður. En þetta hefur ekki aðeins með ásýnd borgarinnar að gera, þetta er líka lýðheilsumál og heilbrigðismál því það eru fjölmargir sem eru með frjókornaofnæmi og frjókornin aukast í andrúmsloftinu ef það er slegið sjaldnar," segir Marta.

Marta segir slætti sinnt hvað verst í úthverfunum, þau sitji á hakanum. „Það er lágmark að þegar skattar og gjöld eru í hæstu hæðum í borginni að þessari þjónustu sé sinnt."

Sláttur í borginni hófst í lok maí.  Júní var vætusamur og grasspretta mikil sem gerði slátturmönnum erfitt fyrir.  Fjórar umferðir eru farnar yfir stærstu svæðin í sumar og vonir standa til að ná tveimur umferðum yfir minni svæðin.

„Stærstu svæðin eru á áætlun og við erum að gefa í með minni svæðin. Við erum búin að bæta við vélum og vinnum lengur til að ná því og við klárum fyrstu umferðina í næstu viku," segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir skrifstofustjóri yfir rekstri og umhirðu borgarlandsins.

Hún segir vissulega nokkuð seint að vera að klára fyrstu umferð í byrjun júlí. En grasvöxtur sé búinn að vera gríðarlegur og erfitt að ráða við grasið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×