Innlent

Stálu grilli frá einhverfum

Bara kúturinn eftir. Þjófarnir stálu grillinu í nótt og skildu starfsfólk Iðjubergs eftir í sárum.
Bara kúturinn eftir. Þjófarnir stálu grillinu í nótt og skildu starfsfólk Iðjubergs eftir í sárum. Mynd/Vilhelm
Þjófar stálu í nótt nýju grilli úr Iðjubergi, vinnustofu sem veitir fólki með einhverfa fötlun vinnu.

„Velunnarar Iðjubergs voru nýbúnir að gefa okkur pall við húsið. Pallinum fylgdi stórt og fínt grill sem var stolið af okkur í nótt. Það er grindverk í kringum pallinn sem er læst en þeir brutu sér leið inn og klipptu á gasslönguna. Þetta er það stórt grill að þetta hefur verið tveggja manna tak,“ segir Margrét Reynisdóttir matráðskona í Iðjubergi.

Grillstuldurinn hefur þegar verið tilkynntur til lögreglunnar. Að sögn Margrétar var starfsfólki afar brugðið þegar það kom til vinnu en um 45 manns vinna í Iðjubergi. "Starfsfólkið og þjónustuþegar eru í miklu sjokki," segir Margrét.

Iðjuberg veitir sem fyrr segir fólki með einhverfa fötlun vinnu við sitt hæfi. Vinnan fellst aðallega í alhliða pökkun á blöðum, tímaritum, geisladiskum og alls konar límmerkingum og fleira. Markmið  vinnustofunnar og hlutverk er að veita fólki með einhverfa fötlun vinnu við sitt hæfi og félagslega aðlögunarhæfni til að takast á við vinnuumhverfi. Einnig er markmið vinnustofunnar að borga laun og lífeyrisgreiðslur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×