Innlent

Segjast hafa náð myndbandi af hafmeyju á Drekasvæðinu

Jóhannes Stefánsson skrifar
Netverjar eru ekki á einu máli um hvort myndskeiðið sé ekta eða ekki.
Netverjar eru ekki á einu máli um hvort myndskeiðið sé ekta eða ekki.
Tveir menn segjast hafa náð því á myndband þegar hafmeyja kom að djúpsjávarkafbáti þeirra þar sem þeir voru við rannsóknir á Drekasvæðinu fyrir íslenska ríkið. Þetta kemur fram í þætti sem heitir Mermaids: The New Evidence og var sýndur á Animal Planet.

Annar mannanna segist heita Torsten Schmidt, danskur sjávarjarðfræðingur, en hann vinnur að sögn við það að framkvæma mælingar með hljóðbylgjum til að reyna að komast að því hvort olíu eða gas sé að finna á sjávarbotninum.

Í myndskeiði sést þar sem mennirnir eru um borð í kafbát um 1000 metra undir yfirborði sjávar, þar sem algjört myrkur er utan ljósa frá kafbátnum sjálfum. Á þessu dýpi er vitað um ýmsar furðulegar lífverur sem þrífast í niðamyrkri og gríðarlegum þrýstingnum. Ýmis furðuhljóð heyrast þar sem mennirnir sitja í kafbátnum, en ljóst er að starfið er ekki fyrir þá sem eru haldnir innilokunarkennd.

Þeir segja jafnframt að íslenska ríkið hafi þaggað niður beiðnir sínar um að rannsaka málið nánar af ótta við að það myndi hafa áhrif á olíuævintýri Íslendinga.

Animal Planet hefur lýst því yfir að atvikið sé ekki raunverulegt, en engu að síður hafa blossað upp heitar umræður um það hvort hafmeyjur séu til eða ekki. Hvað sem öðru líður er myndskeiðið nokkuð óhugnanlegt (hin ætlaða hafmeyja sést best ef spólað er á 33:20):






Fleiri fréttir

Sjá meira


×