Fótbolti

Framkoma Newcastle léleg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alan Shearer segir að grafið hafi verið undan knattspyrnustjóranum Alan Pardew með ráðningu Joe Kinnear í stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Newcastle.

Kinnear var ráðinn í starfið í vikunni og er því nýr yfirmaður Pardew. Kinnear er afar umdeildur maður og skaut föstum skotum á stuðningsmenn félagsins í útvarpsviðtali í vikunni. Þar fór hann einnig rangt með nöfn margra leikmanna félagsins.

„Newcastle er nú búið að grafa undan knattspyrnustjóra sínum á meðan að önnur félög eru á fullu að undirbúa næsta keppnistímabil,“ sagði Shearer sem tók við starfi knattspyrnustjóra af Kinnear á sínum tíma þegar sá síðari átti við heilsufarsvandamál að stríða.

„Fólk hlær að félaginu sem ég styð og það finnst mér ógeðfellt. Mér finnst þetta léleg framkoma hjá Newcastle gagnvart Pardew sem var kjörinn stjóri ársins fyrir tólf mánuðum síðan,“ sagði Shearer.

„Þögnin hans eftir að Kinnear var ráðinn segir allt sem segja þarf. Hann er í vonlausri stöðu enda getur hann ekki komið fram og gagnrýnt sína vinnuveitendur fyrir þetta. Ég myndi gjarnan vilja vita hvort að Joe Kinnear sjálfur myndi sætta sig við þetta ef hann væri í stöðu Pardew.“

„Hann getur svo ekki einu sinni borið nöfn leikmannanna rétt fram. Þetta er algjört stórslys hjá félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×