Innlent

Skógarþröstur í sjálfheldu

Skógarþrösturinn var frelsinu feginn þegar hann losnaði úr skorsteininum.
Skógarþrösturinn var frelsinu feginn þegar hann losnaði úr skorsteininum. MYND/GVA
Margt getur gerst á vaktinni hjá lögreglunni og þannig var því einmitt farið í nótt. Óskað var eftir lögregluaðstoð að húsi í Fossvoginum, en þar hafði skógarþröstur flögrað niður skorstein og gert sig heimakominn þar. Húsfreyjan, ásamt hjálpsömum nágrönnum, gerði sitt besta til að koma fuglinum út úr húsinu en hafði ekki erindi sem erfiði og óskaði því eftir aðstoð lögreglu.

Tveir þrautþjálfaðir lögreglumenn mættu á vettvang og hófust handa við að koma skógarþrestinum út. Hann sýndi aftur á móti ekki á sér neitt fararsnið og virtist ekki hafa áhuga á að fara lengra niður skorsteininn og inn í íbúðina. Það var því ljós að ekki yrði hægt að kveikja upp í arninum á heimilinu ef fuglinn tæki sér bólfestu í skorsteininum.

Samræmdar aðgerðir lögreglu á vettvangi leiddu þó á endanum til þess að skógarþrösturinn var losaður úr prósundinni og flaug hann sína leið. Fuglinn virtist frelsinu feginn og húsfreyjan var lögreglunni afar þakklát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×