Innlent

Furðu lostin á orðum sjávarútvegsráðherra

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar er hvalaskoðun ein af meginstoðum ferðaþjónustunnar.
Samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar er hvalaskoðun ein af meginstoðum ferðaþjónustunnar.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja sjávarútvegsráðherra eindregið að afturkalla ekki ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, forvera síns um stækkun hvalaskoðunarsvæðis í Faxaflóa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að ferðaþjónustufólk sé furðu lostið yfir orðum sjávarútvegsráðherra um hvalaskoðunarsvæðin en í frétt Stöðvar 2 í fyrradag sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra að það hefði verið pólitísk ákvörðun hjá Steingrími J. Sigfússyni að stækka bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa. Hún hefði ekki verið byggð á vísindalegum rökum. Þar sagði Sigurður ætla að endurskoða ákvörðina og íhuga að draga hana til baka.

Samtök ferðaþjónustunnar segir hvalaskoðun eina af meginstoðum ferðaþjónustunnar á Íslandi og þá grein sem vaxið hefur hvað hraðast á síðustu árum. Um sé að ræða stærsta afþreyingariðnað ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu sem hafi margvísleg margföldunaráhrif á aðrar greinar ferðaþjónustu. Veltan í hvalaskoðun sé margfalt meiri en í hrefnuveiðum og gegni þessi grein mikilvægu hlutverki varðandi ímynd Íslands og við landkynningu.

Samtökin hafi í mörg ár óskað eindregið eftir því að hvalaskoðunarsvæðið á Faxaflóa verði stækkað. Því skora samtökin á sjávarútvegsráðherra að afturkalla ekki umrædda reglugerð án viðtæks samráðs við alla hagsmunaaðila og þá aðeins með þeim möguleika að stækka svæðið enn frekar til samræmis við áður framkomnar óskir Hvalaskoðunarsamtaka Íslands og SAF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×