Innlent

Íslensk hostel best

Hrund Þórsdóttir skrifar
Loft Hostel opnaði í vor og hefur heldur betur slegið í gegn.
Loft Hostel opnaði í vor og hefur heldur betur slegið í gegn. MYND/LOFT HOSTEL
Íslensk farfuglaheimili verma fyrsta og þriðja sæti heimslista sem er nokkurs konar ánægjuvog gesta sem gista á farfuglaheimilum. Rekstraraðilar hostelanna tveggja koma úr sömu fjölskyldunni.

Ólafur Eggertsson hefur rekið farfuglaheimilið á Berunesi í Berufirði ásamt konu sinni, Önnu Antoníusdóttur, síðastliðin 40 ár, en það er nú besta hostel í heimi ef marka má gesti sem gefa einkunnir og umsagnir um gististaði sem heyra undir Hostel International. Gestir sem bóka sig í gegnum vefinn hostel.is, geta gefið dvöl sinni einkunn þegar henni lýkur og ánægja gesta í Berunesi mælist nú 99%, sem setur Berunes í efsta sæti heimslistans.

„Svo kitlar það nú ánægjutaugina hjá fjölskyldunni að dóttir okkar, Sigríður, hún er rekstrarstjóri í Reykjavík, þar á meðal á farfuglaheimilinu Loft í Reykjavík og þar er ánægjan það mikil að hún er í þriðja sæti á heimslistanum þannig að fjölskyldan er nokkuð ánægð með sig núna,“ segir Ólafur.

Berunes stendur í alfaraleið við þjóðveg númer eitt á Austfjörðum; við Berufjörð norðanverðan. Það hefur verið á lista þeirra heimila sem gefnar eru umsagnir um frá árinu 2008 og hefur ávallt síðan verið í einu af tíu toppsætum listans, sem hlýtur að teljast glæsilegur árangur. En hver er lykillinn að þessari velgengni?

„Það er nú eiginlega nær að spyrja gestina og lesa kommentin sem frá þeim berast. En í stórum dráttum er það nú kannski sveitakyrrðin, fallegt umhverfið og við skulum nú segja einhver notalegheit af hálfu fólksins og góður aðbúnaður,“ segir Ólafur.

Nánari upplýsingar má nálgast á netsíðunni berunes.is. Ólafur segir sumarið leggjast vel í þau hjónin, lítið sé um ferðaskrifstofuhópa sem bóki langt fram í tímann en að upp úr tuttugasta þessa mánaðar verði starfsemin komin í sumargírinn og verði það að öllum líkindum út ágústmánuð.

„Við fengum alveg frábæra sumarkomu en afskaplega seint þannig að náttúran er mjög vel búin núna, mjög fallegt,“ segir Ólafur Eggertsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×