Innlent

Engar vísbendingar um ferðir konunnar

Ekkert hefur spurst til frönsku konunnar sem saknað hefur verið frá því í gær.
Ekkert hefur spurst til frönsku konunnar sem saknað hefur verið frá því í gær.

Um 130 björgunarsveitamenn frá flestum landshlutum eru nú við leit í Mjóafirði og verið er að kalla út meiri mannskap. Ekkert hefur spurst til frönsku konunnar sem saknað hefur verið frá því í gær.

Leitarsvæðið hefur verið stækkað og er nú leitað í öllum Mjóafirði og nágrenni. Leitað er á landi og sjó, með gönguhópum, fjórhjólum, hundum, hjólum, bátum og verið er að undirbúa flug fisvéla yfir svæðið. Leitarsvæðið er kjarri vaxið og því erfitt til leitar. Veður er þó gott og skyggni ágætt.

Konan mun hafa ætlað í stutta gönguferð frá Heydal um klukkan tíu í gærmorgun. Þegar hún skilaði sér ekki aftur hófu ábúendur í Heydal og nágrenni eftirgrennslan og leit.  

Konan heitir Maylis Lasserre. Hún er grannvaxin, um 170 cm á hæð, hrokkinhærð með fremur sítt skolleitt hár sem hún oftast greiðir í tagl.  Hún var í gær klædd gallabuxum, og prjónasjali.

Lilja Magnúsdóttir í svæðisstjórn Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að leitað verður eins lengi og mannskapur leyfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×