Innlent

Eldri manni haldið nauðugum á heimili sínu

Hrund Þórsdóttir skrifar

Ráðist var inn á heimili eldri manns í Grafarvogi í dag og honum haldið þar nauðugum. Rannsókn málsins er á frumstigi en allt tiltækt lið lögreglu vann að lausn þess í dag.

Maðurinn býr í blokk við Barðastaði í Grafarvogi. Lögreglan hefur staðfest að ruðst var inn hjá honum stuttu eftir hádegið í dag og honum haldið þar nauðugum. Hann er ekki meiddur eftir atvikið, en er eðlilega mjög brugðið.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni er á sjötugsaldri. Nágranni hans lýsir því á Facebooksíðu sinni að maðurinn hafi bankað upp á hjá honum eftir atburðinn, keflaður á höndum og fótum, og beðið um aðstoð. Einnig er haft eftir nágrönnum að lögreglan hafi skoðað geymslu mannsins eftir atburðinn. Árásarmennirnir hafi líklega verið á höttunum eftir verðmætum sem geymd hafi verið þar, hugsanlega skotvopnum. Lögreglan hefur þó ekki viljað staðfesta þessar upplýsingar.

Rannsókn er á frumstigi en lögreglan leggur gríðarlega áherslu á að upplýsa málið og vann allt tiltækt lið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að því seinni partinn í dag. Unnið er út frá vísbendingum sem lögreglan hefur undir höndum og rætt hefur verið við bæði manninn sjálfan og vitni. Þá hefur verið leitað að vísbendingum í hverfinu og talað við fólk í nágrenninu. Málið er á viðkvæmu stigi og lögreglan vill ekki tjá sig um hvort það tengist nýlegum atburðum í undirheimunum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×