Innlent

Skelfing greip um sig meðal skólabarna sem festust í Krossá

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nokkuð algengt er að farartæki festist í Krossá.
Nokkuð algengt er að farartæki festist í Krossá.

Um 100 nemendur úr 10. Bekk í Garðaskóla í Garðabæ lögðu af stað í skólaferðalag til Þórsmerkur í morgun ásamt kennurum. Ein af rútunum komst þó heldur betur í hann krappan þegar hún festist í Krossá á leiðinni. Betur fór en á horfðist, en starfsmenn brugðust hratt við og var rútan fljótlega dregin upp úr ánni með traktor.

 

Guðbjörg Björk Einarsdóttir, einn þeirra kennara sem var með í för, segir allt vera í góðum farvegi, en mikill óróleiki var meðal barnanna þegar þau sátu föst í ánni. Mikið vatn flæddi inn í rútuna og töluvert af farangri og svefnpokum blotnuðu.

 

„Við erum komin yfir núna og það er allt er í góðu standi þrátt nokkra skelfingu sem greip um sig á tímapunkti hjá einhverjum barnanna. Það voru alveg frábærir björgunaraðilar sem komu að og voru með mjög góðan viðbúnað. Krakkarnir eru bara farnir í fótbolta núna og stærstu áhyggjurnar kannski bara hver á blautan svefnpoka.“ segir Guðbjörg. Það þarf þó enginn að sofa blautur þar sem bíll með þurrum sængum og svefnpokum er nú á leiðinni til Þórsmerkur.

 

Samkvæmt upplýsingum Vísis er nokkuð títt að bílar festist í Krossá. Áin er fljót að breytast en viðbúnaður við slíkum aðstæðum er sjaldnast langt undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×