Innlent

Fær styrk fyrir einum degi í einu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki veitt Magnúsi styrk.
Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki veitt Magnúsi styrk.

Magnús Magnússon hyggur á meistaranám í iðnverkfræði við Berkeley-háskólann í Kaliforníu og fjármagnar námið með óvenjulegum hætti. Hann hefur sett á laggirnar vefsíðu þar sem fyrirtæki geta veitt honum námsstyrk fyrir einn dag í einu.

„Ég tók heildarkostnaðinn við námið, um 9 til 10 milljónir króna, og deildi því niður á daga ársins, en námið tekur um það bil ár, og fékk í kringum 25 þúsund krónur á daginn,“ segir Magnús sem setti upp dagatal og biðlar nú til fyrirtækja um að styrkja sig í náminu. „Svo set ég lógó viðkomandi fyrirtækis sem styrkir mig hvern dag og lógóið leiðir þá inn á viðkomandi heimasíðu.“

Magnús, sem er 24 ára, útskrifaðist með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands í fyrra. Hann segir skólagjöldin vera langstærsta hluta upphæðarinnar, en þau eru nærri sjö milljónum króna. „En ég tók áætlaðan heildarkostnað með leigu og uppihaldi.“

Vefsíðan var sett formlega í loftið í gær og hafa nokkur fyrirtæki þegar veitt Magnúsi styrk, en þau velja þá daga sem þau vilja styrkja.

En hvað tekur Magnús til bragðs ef illa gengur að safna?

„Þá bjargar lánasjóðurinn,“ segir hann léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×