Innlent

Er ekki komið sumar?

Boði Logason skrifar

„Góða veðrið er núna á norðausturlandi, þeir eiga það skilið eftir harðan vetur,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa orðið varir við leiðindarveður síðustu daga og útlit er fyrir að það verði svoleiðis áfram næstu daga. „Það verður einhver smá væta með köflum og á föstudaginn er spáð suðaustan átt með rigningu, en helgin er góð. Það er útlit fyrir hægan vind og milt veður, smá dropar,“ segir hún.

„Þetta er svolítið í suðlægum áttum og þá erum við í heldur röku lofti. Það er ekki útlit fyrir að það breytist í vikunni. En það ætti að fara draga úr vindi og úrkomu í nótt,“ segir Helga.

Þó að íbúar á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni hafi ekki orðið var við sólina og hið týpíska „sumar-veður“ er ekki sömu sögu að segja fyrir norðan.

„Það voru 22 gráður á Raufarhöfn í gær og í dag er 21 gráða þar. Svipaða sögu er að segja á Húsavík og Möðruvöllum, og þar er líka bjart.“

Helga segir að þó að sólin feli sig á bakvið skýin á suðvesturlandi sé alveg hægt að tala um að sumarið sé komið.

„Þegar er hitinn er kominn yfir 10 stig er nú komið sumar, þá sprettur allt. Þó það sé ekki sól og ef það er ekki vindur er alveg hægt að tala um að sumarið sé komið,“ segir hún aðspurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×