Innlent

Kvarta undan óvissu og samráðsleysi

Helgi Hjörvar gagnrýnir samráðsleysi.
Helgi Hjörvar gagnrýnir samráðsleysi.

Ekkert liggur fyrir um nefndarskipan eða dagskrá alþingis nú þegar tveir dagar eru til þingsetningar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja þetta óheppilegt og kenna reynsluleysi stjórnarliða um stöðu mála.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, starfandi forseti Alþingis, boðaði þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar til fundar í Alþingishúsinu í morgun. Markmið fundarins var að fara yfir dagskrá þingsetningar á fimmtudag en ekkert liggur hins vegar fyrir hvaða mál verða á dagskrá sumarþingsins og ekki er búið að skipa í þingnefndir.

Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir þetta afar óheppilegt.

„Óvissa og samráðsleysi við stjórnarandstöðuna er auðvitað óheppileg byrjun á kjörtímabili en stjórnarflokkarnir hafa lýst yfir vilja til að bæta úr og ég treysti því að við fáum að sjá vilja til samráðs og samkomulags hér um þingstörfin hér í verki á fundi formanna flokkanna í framhaldi af þessum fundi," segir Helgi.

Undir þetta tekur Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.

„Það er svolítill byrjendabragur á þessu og þetta er óheppilegt. Fyrirvarinn er mjög skammur og við þurfum að raða niður í nefndir: Það skiptir miklu máli að koma þinginu vel af stað," segir Róbert.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir á von á því að málið verði klárað á fundi formanna í kvöld eða á morgun.

„Það hefði verið æskilegra að við hefðum getað lokið vinnu við skipan í fastanefndir þingsins og alþjóðanefndirnar fyrr en raun ber vitni en þetta er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir og formenn flokkanna ætla að hittast í kvöld eða fyrramálið til þess að fara í gegnum það sem að þeim snýr og eftir það ættu þingflokksformenn ásamt formönnum flokka að geta hafist handa við að skipta í nefndir og það er í sjálfu sér ekki flókið," segir Ragnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×