Innlent

Árslaun slitastjórnar 269 milljónir

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Jóhannes R. Jóhannsson stjórnarmaður fékk tæpar 80 milljónir í laun og sagði í samtali við fréttastofu RÚV að um eðlilega hækkun væri að ræða.
Jóhannes R. Jóhannsson stjórnarmaður fékk tæpar 80 milljónir í laun og sagði í samtali við fréttastofu RÚV að um eðlilega hækkun væri að ræða. Samsett mynd

Fjögurra manna slitastjórn Kaupþings fékk 269 milljónir króna í laun í fyrra. Sá launahæsti var með rúmlega sex og hálfa milljón króna á mánuði.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV, og eru laun tveggja stjórnarmanna sögð hafa hækkað um tæp 50 prósent á milli ára. Launakostnaður slitastjórnar var nærri þrefalt hærri í fyrra en árið 2011.

Á fundi kröfuhafa með slitastjórninni sem fram fór í dag kom fram að launakostnaður slitastjórnar, án virðisaukaskatts, hefur aukist úr 97 milljónum árið 2011 í 269 milljónir árið 2012. Það er um 277% aukning og deilist á fjóra stjórnarmenn.

Jóhannes R. Jóhannsson stjórnarmaður fékk tæpar 80 milljónir í laun og sagði í samtali við fréttastofu RÚV að um eðlilega hækkun væri að ræða.

„Við höfum auðvitað á að skipa afskaplega hæfu og góðu starfsfólki sem hefur lagt mikið á sig, sérstaklega að undanförnu,“ sagði Jóhannes. „Það er kannski fyrst og fremst það. Síðan er þetta auðvitað eðlilegt launaskrið og við teljum að þetta sé ásættanleg niðurstaða fyrir búið og kröfuhafa þess.“

Þá hækkuðu laun Davíðs Gíslasonar og Feldísar Óskarsdóttur um tæp 50 prósent á milli ára.

„Ég get ekki tjáð mig fyrir þeirra hönd, það er ekki mitt að tjá mig um það,“ segir Jóhannes. „En ég get þó sagt að eins og aðrir hafa þau unnið mjög ötullega og hörðum höndum að nauðasamningsfrumvörpum síðasta árið og meðal annars sleppt leyfum eins og aðrir í því sambandi,“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×