Fótbolti

Slóvenar fagna fjarveru Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Vilhelm

Mikil stemmning er fyrir leik Íslands og Slóveníu sem fram fer í kvöld, enda á Ísland góða möguleika á því að tryggja sér umspilssæti fyrir HM.

Leikurinn í kvöld er fjórði landsleikur þjóðanna. Slóvenar unnu fyrstu tvo leikina og þar af annan þeirra 1-7. Það var fyrsti landsleikur Loga Ólafssonar með landsliðið og Ísland komst yfir í leiknum. Svo hrundi allt.

Íslensku strákarnir unnu frækinn sigur í Slóveníu er liðin mættust þar í mars síðastliðnum. Þá skoraði Gylfi Þór Sigurðsson gull af marki beint úr aukaspyrnu og var hetja íslenska liðsins. Gylfi Þór er í banni í kvöld og Slóvenar eru dauðfegnir að þurfa ekki að glíma við Gylfa.

„Ef hann hefði ekki spilað fyrri leikinn þá hefðum við kannski unnið. Það munaði svo sannarlega um hann en þessi leikur verður engu að síður gríðarlega erfiður,“ sagði Milivoje Novakovic, framherji liðsins.

Slóvenar hafa talsvert talað um hversu gróft íslenska liðið sé en það hefur brotið oftast af sér hjá liðunum í riðlinum.

Gestirnir frá Slóveníu virðast hafa bætt leik sinn nokkuð síðan þeir léku gegn Íslandi því þeir skelltu Tyrkjum, 2-0, í vináttulandsleik fyrir nokkrum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×