Innlent

Saltvinnsla fyrir sælkera að hefjast á Reykhólum

Kristján Már Unnarsson skrifar

Saltverksmiðja rís nú á Reykhólum og er áformað að hún hefji rekstur eftir mánuð. Ætlunin er að framleiða flögusalt fyrir matgæðinga undir heitinu Norðursalt.

540 fermetra verksmiðjuhús er risið við höfnina á Reykhólum og þar er allt á útopnu þessa dagana. Tuttugu manns vinna við að gera allt klárt, ganga frá húsinu, koma fyrir vélbúnaði og tengja raflagnir og vatnslagnir. Þetta er afkvæmi tveggja ungra manna, Íslendings og Dana, Sörens Rosenkilde og Garðars Stefánssonar. Þeir kynntust í háskólanámi í Árósum og ákváðu að skella sér saman út í ævintýrið.

„Hérna erum við bara að búa til vonandi fínustu saltverksmiðju í heiminum. Þetta er nýi draumurinn okkar, sem er að búa til flottasta íslenskt sjávarsalt," segir Sören á ágætri íslensku í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Aðferðin virkar sáraeinföld. Sjó verður dælt upp úr Breiðafirði og hann eimaður með íslenskum jarðhita þannig að saltið situr eftir.

„Það má segja að þetta sé mikil ævintýramennska og óbilandi trú á hugmyndina á íslenskar náttúruafurðir. Það er það sem við erum að veðja á og trúum virkilega á," segir Garðar.

Saltvinnslan nýtir sér sambýlið við Þörungavinnsluna og fær frá henni heitt affallsvatn en fær einnig heitara vatn beint frá borholu. Þeir ætla að framleiða svokallað flögusalt og er stefnt að því að 95 prósent fari á erlendan markað fyrir sælkera. Fyrirmyndin er breska Maldon-saltið en þeir segjast stefna að því að gera ennþá betra salt. Félagaranir stefna að því að framleiðslan hefjist um mánaðamótin júní-júlí og er áætlað að þarna verði tveir til þrír starfsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×