Innlent

„Ofur lúðalegt en fáránlega skemmtilegt“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Kristján Eldjárn hlaut rannsóknarstyrk til að rannsaka tölvusjón við hinn virta Caltech í Kaliforníu.
Tónlistarmaðurinn Kristján Eldjárn hlaut rannsóknarstyrk til að rannsaka tölvusjón við hinn virta Caltech í Kaliforníu. MYND/EYGLÓ GÍSLADÓTTIR

„Ég var mjög hissa á að fá styrkinn þar sem ég er á fyrsta ári, en það eru yfirleitt annars árs nemar sem fá þetta tækifæri. Þetta er alveg rosalega mikill heiður og geðveikt tækifæri að fá að vinna verkefnið við einn virtasta rannsóknarháskóla í heimi,“ segir Kristján Eldjárn, meðlimur danshljómsveitarinnar Sykurs. Hann leggur stund á nám í tölvunarfræði og er er einn þeirra sautján nemenda við Háskóla Íslands sem munu dvelja við rannsóknir og nám við heimsþekkta háskóla í Bandaríkjunum í sumar. Kristján mun rannsaka svokallaða tölvusjón við California Institute of Technology,Caltech, í Kaliforníu.

 

Kristján hefur í nógu að snúast þar sem Sykur vinnur hörðum höndum að nýrri plötu þessa dagana. „Það er svolítið púsl að vera að taka upp plötu einmitt á þessum tíma, en ég er bara á fullu að taka upp minn hluta núna. Vonandi  hefst þetta allt saman áður en ég fer út í næstu viku.“

 

Rannsóknarverkefni Kristjáns snýst um svokallaða tölvusjón. „Í stuttu máli er ég að kenna tölvum að þekkja hluti í sjón. Þetta er alveg rosalega flókið en ég hef mjög gaman af þessu. “

 

Aðspurður segist hann ekki tvinna námið saman við tónlistina heldur reynir hann að halda hlutunum aðskildum. „Maður hefur alltaf tónlistina og það er nóg að gera í henni, en mér finnst gott að hafa eitthvað praktískt í bakhöndinni þegar listin bregst. Tölvunarfræðin er alveg ofur lúðaleg en á sama tíma fáránlega skemmtileg. Mér finnst bara fínt að vera lúði úti í horni inn á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×