Innlent

Líkamshlutar endurnýttir og seldir úr landi

Hrund Þórsdóttir skrifar

Gerviliðir sem sitja eftir við líkbrennslu eru pússaðir upp og sendir til efnaminni landa. Þannig öðlast íslenskir líkamshlutar framhaldslíf í framandi löndum.

Nú í vor voru gerviliðir úr íslensku fólki sem hefur verið brennt, í fyrsta skipti sendir utan til endurnýtingar, en þeim hefur verið safnað hér í um fimmtán ár. Þegar líkbrennsla á sér stað sitja þessir hlutir eftir en þeir eru úr hertu stáli og koma til dæmis úr mjöðmum, hnjám, öxlum og hryggjum. Gerviliðirnir eru fluttir til Hollands og þar eru þeir pússaðir og síðan seldir áfram.

Fyrir gerviliðina fást litlar upphæðir, en Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, segir þær renna í sjóði kirkjugarðanna.

„Þetta eru smápeningar sem við fáum í sjálfu sér. Þetta er fyrir flutningskostnaði og þvíumlíku en ég veit að þetta kemur sér mjög vel í hinum svokallaða þriðja heimi,“ segir Þórsteinn.

Fyrir líkbrennslu eru gangráðar og bjargráðar fjarlægðir úr líkum til að koma í veg fyrir sprengingar í líkbrennsluofnunum en þá hluti er þó ekki hægt að endurnýta. Þórsteinn segir persónuverndarsjónarmið ekki eiga við um áframseldu íhlutina.

En vita aðstandendur almennt af þessu?

„Ég skal ekki segja um það, hvort það er, en ég er alveg viss um að ef þeir vissu af því væru þeir mjög ánægðir með það,“ segir Þórsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×