Innlent

Fyrsta flík Eggerts feldskera á Þjóðminjasafnið

Hrund Þórsdóttir skrifar

Eggert feldskeri afhenti í dag Þjóðminjasafninu að gjöf, fyrstu flíkina sem hann hannaði og seldi, árið 1977. Um er að ræða glæsilegan mokkajakka úr lambskinni, og var hann í eigu Rannveigar Guðmundsdóttur, fyrrverandi Alþingismanns.

Rannveigu hafði lengi langað í mokkajakka en fann ekki draumaflíkina. Hún sá síðan ungan mann í sjónvarpinu sem reyndist vera feldskeri og hafði uppi á honum. Þegar hún kom á vinnustofuna hans voru þó engir jakkar þar.

„Ég segi honum til hvers ég sé komin og hann segir, ég er ekki byrjaður en ég skal sauma fyrir þig jakka,“ segir Rannveig.

Flíkina notaði Rannveig í yfir 20 ár en á 30 ára starfsafmæli Eggerts batt hún rauða slaufu á jakkann og færði Eggerti hann að gjöf.

„Mér þykir mjög vænt um að Rannveig skyldi fara svona vel með jakkann, þannig að hann væri hæfur til að vera geymdur á Þjóðminjasafninu eftir svona mikla notkun,“ segir Eggert.

Lilja Árnadóttir, fagstjóri munasafns Þjóðminjasafns Íslands, segir gjöfina skipta miklu máli fyrir fatahönnun og fataframleiðslu á Íslandi. En verður jakkinn hafður til sýnis?

„Það kemur að því já, en ekki alveg strax. Nú þurfum við að taka hann til skráningar og meðhöndlunar og svo varðveitum við hann vel og setjum á sýningu þegar svona fatnaður verður sýndur,“ segir Lilja.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×