Innlent

Ósáttur við aðalskipulag borgarinnar

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar verður auglýst í næstu viku. Einhugur hefur verið sagður um málið í borgarstjórn, enda hafa allir flokkar komið að skipulagsvinnunni. Júlíus Vífill Ingvarsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn segir að sátt sé um aðferðarfræðina og nálgunina, niðurstaðan sé hinsvegar meirihlutans og hann sé ekki sáttur við hana  þó mörg flokksystkina hans séu það. Hann segir enga ósátt í flokknum vegna þessa, menn  geti haft ýmsar skoðanir á málinu þó að leiðir skilji ekki.  Hann ætli ekki að styðja nýja aðalskipulag þegar kosið verður um það í borgarstjórn.

Júlíus Vífill er ósáttur við stefnu meirihlutans um 80% þéttingu byggða sem hann segir mjög einsleita og miðborgarmiðaða, fjölbreytileikinn sé ekki hafður að leiðarljósi. Landið í miðborginni sé dýrt og óumflýjanlegt að þar verði byggðar dýrar íbúðir.

„Við þurfum ekki að byggja íbúðir fyrir vel stætt miðaldra fólk í Reykjavík. Við þurfum að byggja íbúðir og byggja hverfi fyrir ungar fjölskyldur."

Júlíus Vífill segir aðalskipulagið talsvert gildishlaðið þegar komið að úthverfum borgarinnar og þar sé talað um gengdarlausa útþennslustefnu.

„Mér finnst þetta einhæft og mér finnst þetta þröngsýnt. Mér finnst lítill skilningur á því að fólk hefur fjölbreytilegar óskir og fjölbreytilegar þarfir og fjölskyldur eru ólíkar."

Hann segir það áhyggjuefni að ungar fjölskyldur kjósi frekar að búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, það sýni sig meðal annars í að fæðingum fjölgi hægar í Reykjavík en þar  og grunnskólanemendum fari fækkandi í Reykjavík en fjölgi í nágrannasveitarfélögum.

„Þétting byggðar er ekki aðeins  þétting byggðar innan þessa lokaða 101 ramma heldur hlýtur þétting byggðar líka að vera það að nýta þá þjónustu og uppbyggingu sem er í öðrum hverfum borgarinnar líka því þetta snýst fyrst og fremst um að nýta þær fjárfestingar sem þegar hafa verið gerðar í þessum hverfum," segir Júlíus Vífill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×