Innlent

Ráðherra segist fara bil beggja

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra stækkaði í dag bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa. Forkastanleg vinnubrögð, segir þingmaður Sjálfstæðisflokks, enda sé verið að taka burt svæði þar sem áttatíu prósent hrefnunnar hafi veiðst. Ráðherrann segist hafa farið bil beggja.

Hvalaskoðunarfyrirtæki hafa lengi þrýst á að griðasvæði hvala yrði stækkað en þar til í kvöld nær það frá Garðskaga og norður fyrir Akranes. Frá miðnætti verður hins vegar bannað að veiða hvali innan línu sem nær frá Garðskaga til Skógarness á Snæfellsnesi. Meirihluti nefndar sem ráðherrann skipaði vildi ganga lengra og girða fyrir hvalveiðar á öllum Faxaflóa.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segist Steingrímur fara bil beggja sjónarmiða, svæðið sé stækkað nokkuð en þó ekki eins mikið og hvalaskoðunarfyrirtæki óskuðu og minna en meirirhluti nefndarinnar hafi lagt til.

„Þannig að það er hér reynt að fara bil beggja og finna nýtt jafnvægi milli þessara tveggja nýtingarforma á hvalnum," segir Steingrímur.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir mjög alvarlegt að ráðherra skuli grípa inn í með þessum hætti þegar hrefnuveiðar eru hafnar og hvalveiðimenn búnir að gera sínar áætlanir. 



„Að hann skuli hér á síðustu metrunum í ráðuneytinu þjóna hagsmunum mjög þröngs hóps innan eigin flokks og grípa til þessara aðgerða, það finnst mér vera forkastanleg vinnubrögð," segir Jón. Hann segir að verið sé að taka burt svæði þar sem um 80% af hrefnu hafi verið veidd frá því atvinnuveiðar hófust á ný.

Ráðherrann hafnar því að óeðlilegt sé að hann taki slíka ákvörðun nánast daginn fyrir brottför úr ráðuneytinu. Stjórnsýslan hafi sinn vanagang.

„Það er ekki þannig að allt stöðvist, enda væri það nú ekki gæfulegt, sérstaklega ekki ef menn dunda sér mikið við stjórnarmyndunarviðræður, þá verður að vera hægt að láta stjórnsýsluna ganga á meðan," segir Steingrímur.

En telur þingmaðurinn ekki rétt að taka tillit til sjónarmiða hvalaskoðunarfyrirtækja í ljósi vaxandi umfangs þeirra og þjóðhagslegs mikilvægis?

Jón Gunnarsson bendir á að hvalaskoðun hafi verið að dafna mjög frá Reykjavík og veiðarnar hafi gengið vel.

„Svo ég spyr bara: Hvað er vandamálið?"

Jón kveðst ætla að hvetja þann ráðherra sem tekur við á næstu dögum að breyta reglunum aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×