Innlent

Óraunhæft að færa Reykjavíkurflugvöll

Kristján Már Unnarsson skrifar

Nýja ríkisstjórnin telur mikilvægt að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði tryggð í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur hugmyndir um að færa flugvöllinn óraunhæfar.

Athygli vekur að sérstakt ákvæði er sett í stjórnarsáttmálann um Reykjavíkurflugvöll, þrátt fyrir að skipulagsvaldið sé hjá Reykjavíkurborg. Mál flugvallarins verða í höndum ráðherra Sjálfstæðisflokks og var formaður flokksins spurður um hvort þetta ákvæði þýddi að völlurinn ætti að vera í Vatnsmýri.

Bjarni Benediktsson sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að með þessu væri verið að undirstrika mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur gegndi áfram því hlutverki sem hann hefði gegnt fram til þessa. Óvissa um framtíð flugvallarins ylli fólki á landsbyggðinni og mörgum öðrum miklum áhyggjum. Með því að setja þetta í stjórnarsáttmála væri verið að lýsa yfir stuðningi við að Reykjavíkurflugvöllur væri nálægt stjórnsýslunni og mikilvægum stofnunum eins og Landspítalanum.

Ekki væri þó tekin afstaða til skipulagsmála né til þess hvort hann væri í Vatnsmýri eða annarsstaðar.

„Ég get sjálfur sagt að mér hefur þótt sem allar hugmyndir um að færa völlinn hafi verið heldur óraunhæfar, - ekki verið á borðinu neinn skýr valkostur fyrir staðsetningu á vellinum," sagði Bjarni.

Ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um flugvöllinn hljóðar svo: „Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins.  Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×