Innlent

Sumarþing kallað saman í byrjun júní

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Sumarþing verður kallað saman fyrstu dagana í júní. Forsætisráðherra segir einhverjar skattalækkanir jafnvel verða lagðar þar fram. Stórar aðgerðir sem varða skuldamál heimilanna bíði hins vegar til haustsins.

Forsætisráðherra á von á að sumarþing verði kallað saman í kringum 3. eða 4. júní. Þó endanleg dagskrá liggi ekki fyrir er ljóst að ríkisstjórnin ætlar að leggja fram nokkur mál. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að á þinginu verði gefið til  kynna hverjar áherslur ríkisstjórnarinnar verði í haust. „Við erum til dæmis að velta fyrir okkur skattamálunum en þar reyndar er mjög mikilvægt að hafa sem mest samráð við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþegahreyfingarnar og atvinnurekendur, til þess að þetta nýtist í að mynda einhverskonar þjóðarsátt vegna þess að til þess að hægt sé að ráðast í allar þessar breytingar til dæmis til þess að skattalækkanir skili sér áfram til neytenda þá þurfa allir að taka þátt í framhaldinu,“ segir Sigmundur Davíð. Hann á von á að einhverjar skattalækkanir verði jafnvel lagðar fram á sumarþinginu.

Þá segir hann að líklegt að breytingar verði gerðar á veiðileyfagjaldinu og hækkun á gjaldi frestað. Kjör öryrkja og aldraðra verði leiðrétt vegna þeirrar skerðingar sem þeir urðu fyrir árið 2009. Varðandi skuldamál heimilanna segir hann ljóst að stóru aðgerðirnar í þeim málum verði ekki lagðar fyrir á sumarþinginu. „Þar erum við að tala um mál sem auðvitað tengist mjög stórum liðum öðrum eins og til dæmis uppgjöri á þrotabúi bankanna. Svoleiðis að þessar stóru breytingar munu ekki koma til strax á sumarþingi einfaldlega vegna þess að þær tengjast svo stórum málum öðrum sem að verið er að leysa úr. Það er þó auðvitað mjög mikilvægt að gefa stax til kynna á sumarþinginu hvert menn stefna og byrja strax að ráðast í aðgerðir sem að heimilin finna áhrifin af,“ segir Sigmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×