Innlent

Íslendingar flykkjast á Beyoncé

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Söngvarinn Arnór Dan er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga í Kaupmannahöfn sem munu sjá söngdívuna Beyoncé koma fram í kvöld.
Söngvarinn Arnór Dan er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga í Kaupmannahöfn sem munu sjá söngdívuna Beyoncé koma fram í kvöld.

Fjölmargir Íslendingar ætla sér að sjá stórstjörnuna Beyoncé Knowles stíga á stokk í Kaupmannahöfn í kvöld. Arnór Dan Arnarsson, söngvari hljómsveitarinnar Agent Fresco, er einn þeirra. Hann segir ekki þverfótað fyrir Íslendingum í Köben þessa stundina.



„Við vorum á Strikinu í gær og mér leið bara eins og ég væri enn á Íslandi. Ég sat á bekk fyrir utan H&M og það voru Íslendingar allt í kringum mig. Ég hef tekið mikið eftir þessu alla helgina, í verslunum, görðum og á pöbbarölti.“



Tónleikarnir fara fram í tónleikahöllinni Forum sem hýsir rúmlega tíu þúsund manns. Arnór er sannfærður um að Íslendingar á svæðinu verði yfir þúsund talsins. „Það væri mjög forvitnilegt að fá að sjá einhverjar tölur yfir hvað við verðum mörg þarna, ég veit að það eru heilu vinahóparnir að fara saman.“



Arnór gaf kærustunni sinni miða á tónleikana í afmælisgjöf, en Beyoncé er í miklu uppáhaldi hjá þeim báðum. „Hún er bara flottasta söngkona, listamaður og fyrirmynd í heimi. Hún er ótrúleg kona“, segir Arnór, sem hlakkar mest til að heyra hana taka hugljúfa smellinn Halo. „Við erum bara búin að vera að blasta Beyoncé í allan dag, njóta sólarinnar og drekka Sommersby. Í þessum töluðu orðum erum við að gera okkur til og förum svo bara að drífa okkur í Forum, “ segir hann spenntur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×