Innlent

Handtekinn eftir heimilisófrið - fær bætur frá ríkinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í 28 tíma.
Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í 28 tíma.
Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða karlmanni 100 þúsund krónur í skaðabætur vegna þess að honum var haldið lengur í fangelsi en efni stóðu til. Maðurinn var handtekinn fyrir utan heimili sitt í Reykjavík skömmu fyrir hádegi sunnudaginn 5. febrúar í fyrra.

Þá hafði eiginkona hans kallað til lögreglu þegar hún komst að því að hann ætlaði að aka bifreið sinni drukkinn með ungt barn þeirra með sér. Þegar lögreglan kom á vettvang sat maðurinn í framsæti bifreiðar sinnar og var búinn að festa barnið, tæplega þriggja ára stúlku, í öryggisbelti í aftursætið. Hann neitar því hins vegar að hafa ætlað að aka bifreiðinni heldur kveðst hann hafa farið út í bifreiðina með barnið til þess að draga andann og koma í veg fyrir að dóttir hans yrði vitni að frekara rifrildi þeirra hjóna.

Þá segir í dómnum að rökstuddur grunur sé um að maðurinn hafi beitt konu sína og tólf ára dóttur þeirra ofbeldi. Í samtölum lögreglu við þær kom fram að þegar eiginkona hans var að reyna að koma í veg fyrir að hann færi í bíltúr með dætur þeirra hefði komið til átaka milli þeirra hjóna. Hefði stelpan gengið á milli og hefði stefnandi þá slegið til hennar og hent henni til. Maðurinn var handtekinn og honum haldið í fangaklefa í 28 klukkustundir. Hann stefndi ríkinu vegna handtökunnar og krafðist bóta.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að tilefni hefði verið til handtökunnar. Íslenska ríkinu hafi hins vegar borið, lögum samkvæmt, að láta manninn lausan innan við 24 klukkustundum eftir að hann var handtekinn. Ekki hafi verið tilefni til undanþágu frá þeirri reglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×