Innlent

Segir ímyndarsköpun Kennarasambandsins ekki til fyrirmyndar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. Mynd úr safni
„Það eru engar rangfærslur þarna. Ég held bara að það séu fleiri skýringar en þarna eru nefndar um þessa minnkandi aðsókn,“ segir Bragi Guðmundsson, prófessor og formaður kennaradeildar hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, í kjölfar fréttar í Fréttablaðinu í dag um minnkandi aðsókn í kennaranám.

Í fréttinni er talað við Ólöfu Rut Halldórsdóttur, formann nemendafélags kennaradeildar Háskóla Íslands, og segir hún að laun hefðu þurft að hækka í samræmi við lengingu kennaranámsins.

„Ég veit ekki alveg hvað veldur þessari gríðarlegu fækkun en mín ágiskun er sú að þetta sé vegna lengingar námsins og lélegra kjara,“ segir Ólöf Rut við Fréttablaðið. Einnig er rætt við Önnu Kristínu Sigurðardóttur, deildarforseta kennaradeildarinnar, og segir hún margar ástæður liggja að baki en launakjör spili þar stóran þátt.

„Hún er með alveg réttan punkt og það eru auðvitað allt í lagi að benda á að launin hafa ekki ennþá hækkað í samræmi við lengingu námsins,“ segir Bragi í samtali við Vísi, en bætir því við að það fólk sem innritaðist í fimm ára kennaranám sé að ljúka sínu fjórða námsári og eigi eitt ár eftir í skóla.

„Það fer ekki á vinnumarkaðinn fyrr en 2014. Því má segja að sveitarfélögin hafi nægan tíma til að bregðast við þessari lengingu í næstu kjarasamningum.“

Bragi segir að niðursveiflan sé eðlileg í kjölfar hinnar miklu aðsóknar sem varð í námið rétt áður en það var lengt.

„Aðsóknin hefur dregist hlutfallslega minna saman hjá okkur en hjá menntavísindasviði en ég tel að ein ástæðan fyrir minnkandi aðsókn sé sú að þegar fólk áttaði sig á því að kennaranámið var að lengjast kom skriða inn í báða skólana af fólki sem vildi ná réttindunum áður en lengingin tæki gildi. Svo eftir að lengingin varð að veruleika varð niðursveifla í aðsókninni sem mun síðan væntanlega jafna sig.“

Tvö af umræddum veggspjöldum á vef Kennarasambands Íslands.Mynd/Ki.is
Nöturleg ímyndarsköpun

Þá talar Bragi um neikvæða ímynd af kennarastarfinu, og að hún skrifist að hluta til á kennarana sjálfa, sem og Kennarasamband Íslands.

„Ég held að Kennarasambandið og kannski kennarar sjálfir hafi vanrækt að tala út á við með jákvæðum hætti um sig og starf sitt. Þannig að þeir hafi í reynd skapað neikvæða ímynd af umhverfi og starfskjörum þessarar stéttar.“

Hann tekur sem dæmi veggspjöld sem Kennarasambandið hefur á vefsíðu sinni til útprentunar, og hengd hafi verið upp í skólum víða.

„Þarna sjást brotnar reglustikur, ónýtir gráðubogar og ég veit ekki hvað og hvað. Og talað um dalandi menntun og dökkar horfur. Hvaða skilaboð eru þetta? Hvaða menntun er dalandi? Er það kennaramenntunin með lengingunni? Er það menntunin sem kennarar sjálfir veita í skólunum? Þetta nær eiginlega ekki nokkurri átt. Ímyndasköpun af þessu tagi er ekki til fyrirmyndar. Hvað á það að þýða að sýna börn sem norpa undir grýlukertum? Ég er bara að sýna fram á þá ímyndarsköpun sem fram í Kennarahúsinu við Laufásveg. Hún er nöturleg og ég er henni algjörlega ósammála. Ef mönnum er umhugað um endurnýjun innan hópsins ættu menn að leggja áherslu á hversu gott og gefandi þetta starf er og hversu starfsumhverfið er að mörgu leyti lokkandi. Svo geta menn auðvitað haft deildar meiningar um það hversu góð eða slæm launakjörin eru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×