Fótbolti

Götze fer til Bayern í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn tvítugi Mario Götze mun í sumar söðla um á milli stórveldanna í Þýskalandi og ganga til liðs við Bayern München.

Götze er uppalinn hjá Dortmund og Þýskalandsmeistari með liðinu árin 2011 og 2012 en Bayern tryggði sér nýverið Þýskalandsmeistaratitilinn eftir að hafa haft ótrúlega yfirburði í allan vetur.

Umboðsmaður Götze staðfesti við þýska fjölmiðla að Dortmund hafi neyðst til að selja leikmanninn þar sem Bayern greinir þá lágmarksupphæð fyrir hann sem tilgreind er í samningi Götze.

Þýska blaðið Bild segir að kaupverðið nemi 37 milljónum evra eða 5,6 milljarða króna. Götze þykir einn efnilegasti knattspyrnumaður Evrópu og voru stærstu lið álfunnar á höttunum eftir kappanum.

Pep Guardiola mun taka við Bayern þann 1. júlí næstkomandi en þá mun Götze formlega ganga til liðs við félagið.

Bayern mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld en á morgun mætir Dortmund liði Real Madrid í hinni undanúrslitarimmunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×