Fótbolti

Terry neitaði að taka í hönd Bernstein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Terry og Frank Lampard afhenda Michel Platini bikarinn í dag.
Terry og Frank Lampard afhenda Michel Platini bikarinn í dag. Nordic Photos / Getty Images
John Terry er greinilega enn sótillur út í enska knattspyrnusambandið fyrir að taka af sér fyrirliðaband enska landsliðsins á sínum tíma.

David Bernstein er stjórnarformaður sambandsins og tók ákvörðun um að taka fyrirliðastöðuna af Terry eftir að hann var kærður fyrir að beita Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði á sínum tíma.

Terry var einnig ósáttur við þátt Bernstein í réttarhöldunum sem fylgdu. Þar var Terry sýknaður, þó svo að enska sambandið hefði dæmt hann í fjögurra leikja bann.

Þeir hittust í dag þegar að Chelsea afhenti Knattspyrnusambandi Evrópu bikarinn sem liðið fékk fyrir að vinna Meistaradeild Evrópu í fyrra.

„Þetta var erfitt fyrir mig. Hann fór í dómssalinn og talaði um mig þar,“ sagði Terry og sagðist aðspurður ekki hafa tekið í hönd Bernstein.

Sjálfur hafði Bernstein ekki áhyggjur af þessu. „Samband okkar er nokkuð stirt. En ég er með önnur mál á minni könnu,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×