Fótbolti

Breyttar áherslur gegn Ungverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Glódís Perla og Sara Björk eru báðar í byrjunarliði Íslands í dag.
Glódís Perla og Sara Björk eru báðar í byrjunarliði Íslands í dag. Mynd/AP
Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt gegn Ungverjalandi í leiknum um níunda sætið á Algarve-mótinu í Portúgal.

Ísland tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og mætir Ungverjum í lokaleik sínum í mótinu klukkan 12.00.

Sif Atladóttir, einn besti maður liðsins, er ekki í byrjunarliðinu í dag en Katrín Jónsdóttir kemur inn í liðið í hennar stað. Þá kemur Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir inn á miðjuna í stað Hörpu Þorsteinsdóttur.

Talsverðar breytingar eru á miðju og í sókn. Aðeins tvær breytingar eru gerðar á byrjunarliðinu en landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar hefur þó fært alla leikmenn sem léku á miðju og í sókn gegn Kína á mánudaginn í nýja stöðu.

Sara Björk Gunnarsdóttir færir sig í stöðu sóknartengiliðs, þar sem Harpa var áður, og Dóra María Lárusdóttir út á hægri kantinn. Rakel Hönnudóttir fer í fremstu víglínu og Hólmfríður Magnúsdóttir aftur í sína vanalegu stöðu á vinstri kantinum.

Dagný Brynjarsdóttir, sem spilaði vinstra megin gegn Kínverjum, er nú komin inn á miðjuna þar sem hún verður við hlið Gunnhildar Yrsu.

Fylgst er með leiknum á Facebook-síðu KSÍ.

Byrjunarlið Íslands:

Markvörður: Þóra Helgadóttir

Hægri bakvörður: Elísa Viðarsdóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Glódís Perla Viggósdóttir

Tengiliðir: Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir

Framherji: Rakel Hönnudóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×