Enski boltinn

95 milljónir í nýtt gras á Old Trafford

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Old Trafford fær andlitslyftingu í sumar þegar blanda af gervigrasi og náttúrulegu grasi verður lagt á völlinn. Kostnaðurinn nemur hálfri milljón punda eða 95 milljónum króna.

Hollenska fyrirtækið Desso mun leggja grasið strax eftir síðasta heimaleik United í deildinni í vor, gegn Swansea þann 12. maí. Nýja grasið þarf um tvo og hálfan mánuð til að jafna sig.

Álíka gras er á þekktum völlum í Englandi - á þjóðarleikvanginum Wembley sem og hjá Arsenal, Manchester City, Liverpool og Tottenham.

Alex Ferguson, stjóri United, hefur verið óánægður með ástand vallarins að undanförnu og segir hann of þungan. Það bitni sérstaklega á Darren Fletcher sem hefur verið að glíma við veikindi undanfarin ár.

„Það hefur ekki hentað Darren að spila á þeim völlum sem við höfum verið á síðustu vikurnar. Því miður virðist sem svo að okkar völlur hafi hrunið á síðustu tveimur vikum," sagði Ferguson við enska fjölmiðla.

„Við höfum átt frábær sex ár á þessu grasi. Vallarstjórinn okkar, Tony Sinclair, hefur staðið sig frábærlega en breytinga er þörf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×