Enski boltinn

Kemur Sir Alex í veg fyrir að Rio verði með landsliðinu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, er líklegur til að reyna að koma í veg fyrir að Rio Ferdinand verði með enska landsliðinu í næstu viku en miðvörðurinn var í gær valinn í landsliðið í fyrsta sinn í rúm tvö ár.

Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, valdi Rio óvænt í landsliðshóp sinn en hann hefur ekki gert það síðan að hann tók við enska liðinu fyrir EM 2012. Hodgson lét Rio Ferdinand ekki vita af vali sínu fyrir fram og ætlaði að koma leikmanninum skemmtilega á óvart. Hann kom fleirum á óvart.

„Ég var hissa þegar ég heyrði fréttirnar. Ég þarf samt að tala við lækni Manchester United því við Rio Ferdinand þarf sérstakan undirbúning fyrir þá leiki sem hann spilar og hann þarf líka að gangast undir ákveðnar meðferðir," sagði Sir Alex Ferguson á blaðamannafundi í dag.

„Rio þarf að viss um að hann verði í lagi miðað við hve marga leiki hann spilar. Hann hefur gert það undanfarin tvö ár og það hefur gengið vel. Við verðum að fara vel yfir þessa hluti áður en Rio ákveður að vera með landsliðinu," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×