Enski boltinn

Átta stiga forysta Cardiff

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cardiff náði átta stiga forystu á toppi ensku B-deildarinnar með 2-0 sigri á Sheffield Wednesday í dag. Næstu tvö lið á eftir, Hull og Watford, töpuðu bæði sínum leikjum.

Aron Einar Gunnarsson og Heiðar Helguson voru báðir í byrjunarliði Cardiff í dag. Aron Einar spilaði allan leikinn en Heiðar fór af velli á 87. mínútu.

Cardiff hafði ekki unnið í þremur deildarleikjum í röð og úrslit dagsins því kærkomin fyrir liðið sem virðist vera á mjög góðri leið með að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Wolves vann svo þrjú afar dýrmæt stig í botnbaráttu deildarinnar liðið hafði betur gegn Bristol City, 2-1. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður á 38. mínútu en þá var staðan 1-0 fyrir Bristol City eftir að David Davis hafði skorað ótrúlegt sjálfsmark.

Davis sendi boltann á markvörðinn Carl Ikeme sem missti boltann í gegnum lappirnar og horfði á eftir honum í eigið net.

Kevin Doyle og Sylvan Ebanks-Blake skoruðu mörk Wolves með tveggja mínútuna millibili þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Wolves er þó enn í fallsæti en en liðið er í 23. sæti með 42 stig. Liðið er þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×