Enski boltinn

Björn Bergmann fór illa með dauðafærin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lærisveinar Gianfranco Zola í Watford náðu ekki að halda áfram sigurgöngu sinni í ensku b-deildinni í kvöld þegar liðið gerði 1-1 jafntefli á útivelli á móti Wolves. Watford var búið að vinna þrjá leiki í röð en Úlfarnir tryggðu sér stig með því að skora jöfnunarmark í uppbótartíma.

Björn Bergmann Sigurðarson spilaði allar 90 mínúturnar hjá Wolves og var óheppinn að skora ekki í þessum leik. Úlfarnir hafa nú spilað tólf leiki í röð án þess að vinna og þeir hafa aðeins náði í fimm stig frá jólum.

Úlfarnir eru áfram í þriðja neðsta sæti deildarinnar og í mikilli fallhættu en Watford er í fínum málum í öðru sætinu.

Almen Abdi skoraði fyrsta mark leiksins með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu fjórum mínútum fyrir hálfleik og það leit allt út fyrir að það yrði sigurmarkið þegar Bakary Sako jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Björn Bergmann fékk tvö algjör dauðafæri í leiknum, sitt hvorum megin við mark Abdi, en tókst ekki að skora. Í bæði skiptin varði Jonathan Bond, markvörður Watford, frábærlega frá honum. Bond lék í marki Watford í kvöld í stað Manuel Almunia sem er meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×