Enski boltinn

Arsenal: Ekkert til í því að félagið verði selt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal segir ekkert til í þeim fréttum að Stan Kroenke sé að fara selja meirihluta sinn í félaginu til fjárfestingafélags í Miðausturlöndum. Í gær voru fréttir í Sunday Telegraph um að ónefndur aðili hefði boðið 1,5 milljarða punda í hlut Bandaríkjamannsins í enska félaginu.

„Hr. Kroenke er bundinn Arsenal í langan tíma og hefur ekki neinar áætlanir um að selja hlut sinn," sagði Mark Gonnella, yfirmaður samskiptamála hjá Arsenal.

„Það hefur enginn haft samband við félagið um hugsanlega yfirtöku," bætti Gonnella við. Stan Kroenke kom inn í stjórn félagsins 2008 og hefur átt tvo þriðju af Arsenal síðan 2011.

Upphaflega fréttin í Sunday Telegraph var um að fjársterkir menn frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar hafi óskað eftir fundi með Stan Kroenke.

Þar kom líka fram að eftir yfirtökuna fengi knattspyrnustjórinn fullt af pening til leikmannakaupa og að miðaverð á Emirates Stadium yrði einnig lækkað.

Arsenal hefur ekki unnið titil síðan 2005 og Kroenke fékk mikla gagnrýni fyrir að selja stjörnuleikmenn eins og þá Cesc Fabregas, Samir Nasri og Robin van Persie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×