Enski boltinn

Sá 39 ára með þrennu fyrir Palace

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Phillips.
Kevin Phillips. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kevin Phillips skoraði þrennu fyrir Crystal Palace í ensku b-deildinni í fótbolta í gær en kappinn er orðinn 39 ára gamall. Sigurinn var mikilvægur fyrir Palace-liðið í baráttu um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Kevin Phillips kom á láni frá Blackpool í janúar og var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Crystal Palace. Hann skoraði fyrsta markið úr víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks en hin tvo á tveggja mínútna kafla snemma í seinni hálfleik.

„Strákurinn er algjör fagmaður og ennþá í frábæru formi. Hann er með lungu 26 ára manns. Ég er ánægður með að hann áttar sig á því hvernig ég vil nota hann," sagði Ian Holloway, knattspyrnustjóri Crystal Palace, um framherjann sinn.

Kevin Phillips verður fertugur í júlí en hann spilaði síðasta í ensku úrvalsdeildinni fyrir Birmingham City 2010-11. Hann hefur líka spilað með Sunderland, Southampton og Aston Villa í úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×