Enski boltinn

Owen býst ekki við því að Rooney fari frá United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney kemur inn á völlinn þegar 17 mínútur voru eftir.
Wayne Rooney kemur inn á völlinn þegar 17 mínútur voru eftir. Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Owen, fyrrum liðsfélagi Wayne Rooney hjá bæði Manchester United og enska landsliðinu, hefur ekki trú á því að Rooney fari frá félaginu í sumar.

Ensku blöðin hafa verið dugleg að velta fyrir sér framtíð Wayne Rooney eftir að hann komst ekki í byrjunarlið Sir Alex Ferguson fyrir leikinn mikilvæga á móti Real Madrid á Old Trafford á þriðjudagskvöldið.

Rooney kom svo inn á völlinn á 73. mínútu en þá var Manchester United lent 1-2 undir og á leið út úr Meistaradeildinni.

Nánast öll ensku blöðin eru á því að Rooney sé á sínu síðasta tímabili með Manchester United.

„Þetta eru bara einhverjar vangaveltur og ég er viss um að hann komi sterkur til baka," sagði Michael Owen í viðtali við

talkSPORT.

„Wayne þarf augljóslega að taka sig á og komast í sitt besta form. Hann hefur rétta hugarfarið og jafnframt hæfileikana til að sanna sig á ný fyrir stjóranum," sagði Owen.

Wayne Rooney hefur skorað 12 mörk og lagt upp önnur 12 í 26 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×