Enski boltinn

Laudrup framlengdi um eitt ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michael Laudrup framlengdi í dag samning sinn við Swansea um eitt ár og er hann nú skuldbundinn félaginu til 2015. Laudrup hefur náð frábærum árangri á sínu fyrsta ári sem knattspyrnustjóri Swansea og til að mynda verið orðaður við spænska stórliðið Real Madrid. Hann tók við af Brendan Rodgers sem fór til Liverpool í sumar og er þegar búinn að vinna titil. Swansea varð enskur deildabikarmeistari í síðasta mánuði en það var fyrsti stóri titill félagsins í sögu þess. Swansea er nú í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og Laudrup hefur hug á að gera enn betur hjá félaginu. "Við erum byrjaðir á einhverju sem ég vil halda áfram með,“ sagði Laudrup í viðtali á heimasíðu Swansea. "Það hafa lengi verið vangaveltur um mína framtíð en ég er ánægður, eins og ég hef alltaf sagt, og efaðist aldrei um framtíð mína hér.“ Swansea tryggði sér sæti í forkeppni Evrópudeildar UEFA með sigri sínum í deildabikarkeppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×