Enski boltinn

Marklínutæknin líka á leiðinni í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
FIFA tilkynnti í gær að Marklínutækni yrði notuð á HM 2014 í Brasilíu og nú aðeins degi síðar berast fréttir af því að þessi rándýra tækni verði væntanlega sett líka upp hjá liðunum í ensku úrvalsdeildinni.

Enska úrvalsdeildin, sem er að flestra mati talin vera besta fótboltadeild í heimi, hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið og þar er ekki hægt að lesa út annað en að Marklínutæknin verði sett upp þar.

„Enska úrvalsdeildin hefur lengi barist fyrir notkun á Marklínutækninni. Við höfum átt viðræður við leyfishafana hjá FIFA með það sem stefnu að taka þessa tækni í notkun í okkar deild eins og fljótt og auðið er," segir í umræddri yfirlýsingu.

Svo gæti jafnvel farið að marklínutæknin verði komin í notkun fyrir byrjun næsta tímabils og að enska úrvalsdeildin verði jafnvel búin með eitt tímabil með Marklínutækni þegar kemur að HM í Brasilíu sumarið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×