Enski boltinn

Ferguson: Jones óhræddur eins og Robson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Phil Jones verður ekki með Manchester United gegn QPR í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Þetta staðfesti Alex Ferguson, stjóri liðsins í dag.

Jones haltraði meiddur af velli þegar að United vann 2-1 sigur á Reading í ensku bikarkeppninni á mánudagskvöldið. Jones heldur upp á 21 árs afmæli sitt í dag.

Þá er óvíst hvort að Jones nái síðari viðureign United gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hann þótti standa sig vel í fyrri leiknum sem lauk með 1-1 jafntefli í Madríd.

„Eftir að hafa skoðað meiðslin finnst okkur fremur ólíklegt að hann muni ná seinni leiknum gegn Real Madrid," sagði Ferguson á blaðamannafundi í dag.

„Phil stóð sig frábærlega í Madríd. Það skiptir hann engu máli við hvern við erum að spila því hann óttast engan. Það eru enn tvær vikur í síðari leikinn og margt getur gerst á þeim tíma."

Jones meiddist þegar hann flækti fótinn illa eftir tæklingu. Ferguson lofaði þó viðhorf kappans.

„Hann hefur þor og vilja til að fara í tæklingar og það vil ég ekki taka af honum. Bryan Robson var eins. Hvorugur sá neitt hættulegt við það að fara í tæklingar. Phil er mjög hugrakkur leikmaður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×