Enski boltinn

Wenger verður ekki rekinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger mun sitja mánaðarlegan stjórnarfund hjá Arsenal í dag en þó verður ekki rætt um hans framtíð hjá félaginu.

Þetta kemur fram á vef BBC í dag en þar segir að það sé enginn vilji hjá stjórnarmönnum að láta Wenger fara, jafnvel þótt að félaginu takist ekki að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.

Stan Kroenke er stærsti hluthafaeigandi Arsenal og Wenger nýtur stuðnings hans, sem og annarra stjórnarmanna í félaginu.

Kroenke fylgdist með þegar að Arsenal tapaði fyrir Bayern München, 3-1, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni.

Wenger er samningsbundinn Arsenal til 2014 og eru forráðamenn félagsins sagðir reiðubúnir að bjóða honum lengri samning, þrátt fyrir að Arsenal hafi ekki unnið titil síðan 2004. Wenger tók við Arsenal árið 1996 og hefur náð frábærum árangri með liðið síðan þá.

Þó eru margir stuðningsmenn Arsenal óánægðir með ástand mála nú og eru orðnir langþreyttir í biðinni eftir næsta titli. Liðið er nú í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá Meistaradeiladsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×