Enski boltinn

Gerrard: Fáir í heiminum hafa spilað betur en Suarez að undanförnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard segir að Úrúgvæinn Luis Suarez hafi sýnt með frammistöðu sinni á tímabilinu að fáir eru í dag betri knattspyrnumenn en hann.

Suarez hefur skorað 23 mörk með Liverpool á tímabilinu, þar af átján í ensku úrvalsdeildinni.

„Mér finnst hann leikmaður ársins, bæði í þessari deild og í mörgum öðrum," sagði Gerrard í viðtali við fréttavef BBC.

„Það eru líklega bara einn eða tveir knattspyrnumenn sem hafa staðið sig betur en hann. Ég veit ekki hvort hann geti bætt sig eitthvað enn frekar en það er fremur ógnvekjandi tilhugsun."

Liverpool mætir Zenit frá St. Pétursborg í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA klukkan 20.05 í kvöld. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Zenit vann fyrri leikinn á heimavelli, 2-0, en Gerrard hefur ekki gefið upp alla von. „Vonandi nær Suarez að sýna töfra sína. Bestu leikmenn heims eru þekktir fyrir leiki þar sem þeir skora mikilvæga leik og snúa aðstæðum sínum liðum í hag."

„Ég myndi gjarnan vilja að Suarez verði hetja leiksins í kvöld. Hann á það skilið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×