Enski boltinn

Swansea undir það búið að missa Laudrup

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn velska liðsins Swansea eru þegar byrjaðir að skoða mögulega arftaka fyrir Michael Laudrup ákveði hann að fara til stærra félags.

Laudrup tók við Swansea af Brendan Rodgers í sumar og hefur náð frábærum árangri með liðið. Swansea er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og keppir um helgina til úrslita gegn Bradford í ensku deildabikarkeppninni.

„Við verðum að vera meðvitaðir um hina ýmsu knattspyrnustjóra og fyrir hvað þeir standa," sagði Huw Jenkins, stjórnarformaður félagsins.

„Við vitum að það er mögulegt að annar stjóri muni koma til starfa hjá félaginu í framtíðinni. Þetta er því ferli sem er alltaf í gangi. Hvort það verði eftir eitt ár, tvö eða fimm þá verðum við að vera tilbúnir," sagði hann.

Nú síðast var Laudrup orðaður við eitt stærsta knattspyrnufélag heims, spænska stórveldið Real Madrid. En það er þó ekki nýtt að Swansea missi stjóra sína til stærri félaga því Laudrup er fjórði stjóri liðsins á fimm árum.

„Þessir menn blómstruðu hjá okkur og vöktu athygli annarra. Það er góðs viti fyrir Swansea en þýðir líka að við þurfum sífellt að vera með viðbraðgsáætlanir í gangi."

Úrslitaleikur Bradford og Swansea hefst klukkan 16.00 á sunnudag og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×