Enski boltinn

Mancini þreyttur á vangaveltunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segist vera orðinn þreyttur fréttaflutningi þar sem aðrir eru orðaðir við hans stöðu hjá félaginu.

Nú síðast var Manuel Pellegrini, fyrrum stjóri Real Madrid, orðaður við stjórastöðuna hjá City og fullyrt í heimalandi hans, Síle, að hann myndi taka við liðinu í sumar.

„Ég get ekki svarað spurningum í hverri viku um þennan stjóra og hinn. Af hverju ætti Manchester City að skipta um knattspyrnustjóra?"

Mancini sagði í vikunni að enginn stjóri í Englandi hefði náð betri árangri en hann síðustu fimmtán mánuðina. Hann ítrekaði það á blaðamannafundi í dag.

„Síðan Manchester United varð Englandsmeistari árið 2011 hefur verið spilað um sjö titla. Manchester City vann þrjá af þessum sjö."

Mancini er samningsbundinn City til 2017. „Ég á enn fjögur ár eftir af mínum samningi. Þið verði að spyrja stjórnarformanninn um þetta. Ég tel að ég sé að standa mig vel og ég er ánægður hér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×